Lög Félags íslenskra samtímaljósmyndara.

1 gr.
Heiti félagsins er Félag íslenskra samtímaljósmyndara. Skammstafað FÍSL.

2 gr.
Lögheimili og varnarþing er í Reykjavík.

3 gr.
Félagið er hagsmuna og fagfélag.
Markmið félagsins eru að : 

  • Vinna að framþróun framsækinnar fagurfræðilegrar ljósmyndunar á Íslandi
  • Vinna að aukinni virðingu og skilningi á ljósmyndamiðlinum 
  • Stuðla að aukinni kennslu í ljósmyndun á háskólastigi 
  • Vinna að fleiri og betri sýningum
  • Vinna að útgáfu á ljósmyndaverkum
  • Vinna að því að ljósmyndurum takist að vinna að list sinni
  • Vinna að auknum rannsóknum á ljósmyndamiðlinum
  • Vinna að auknum tengslum við sambærilegar stofnanir erlendis
  • Vinna að aukningu í fagurfræðilegri notkun á ljósmyndamiðlinum svo og vinna að aukinni fagmennsku í höndlun á efnistökum miðilsins
  • Hvetja ríki, borg og einkafyrirtæki til að styðja við framsækna ljósmyndun
  • Stuðla að þýðingum á mikilvægum ritum/ritgerðum um ljósmyndamiðilinn

4 gr.

Rétt til að sækja um aðild að Félagi Íslenskra Samtímaljósmyndara hafa þeir sem lokið hafa BA námi í ljósmyndun eða hafa aðra sambærilega menntun samkvæmt yfirlýsingu viðkomandi skóla.

Að öðrum kosti þarf umsækjandi að uppfylla þrjú af neðangreindum skilyrðum:

1. Önnur menntun í myndlist (að lágmarki samtals 2 ár) staðfest með yfirlýsingu viðkomandi stofnunar.

2. Ein eða fleiri einkasýningar í opinberum sýningarstöðum.
Staðfesting fylgi.

3. Þátttaka í alþjóðlegri sýningu, samsýningu styrktri af opinberum aðilum eða ekki færri en fimm samsýningum öðrum.
Staðfesting fylgi.

4. Hafa fengið útgefna ljósmyndabók, af viðurkenndu forlagi, með ljósmyndum viðkomandi. Sýnishorn fylgi.

5. Eiga minnst eitt verk í opinberri eigu, keypt af viðkomandi safnráði eða matsnefnd.
Staðfesting fylgi.

6. Hafa hlotið opinberan styrk eða starfslaun.
Staðfesting fylgi.

Í sérstökum tilvikum er hægt að ganga í félagið án þess að öll ofangreind skilyrði séu til staðar. Skal þá stjórn vera einhuga að baki slíkri ákvörðun.

Ljósmyndun skal vera aðal miðill umsækjanda.
Markmið umsækjanda skulu fara saman við markmið félagsins. 

5 gr.

Umsókn um inntöku í félagið skal komið til formanns félagsins. Formaður skal leggja inntökubeiðni fyrir næsta stjórnarfund sem ákveður hvort umsækjanda skuli veitt inntaka í félagið. Stjórnin skal síðan tilkynna umsækjanda málalok.

6 gr.
Heimilt er að segja sig úr félaginu frá og með áramótum, með minnst mánaðar fyrirvara. Úrsögn skal vera skrifleg og afhendast formanni félagsstjórnar, sem skal skyldur til að gefa skriflega viðurkenningu fyrir móttöku úrsagnarinnar, sé þess krafist.

7.gr.
Stjórn Félags íslenskra samtímaljósmyndara skipa fimm fulltrúar: formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Einn meðstjórnenda gegnir hlutverki varaformans. Stjórnin skiptir með sér verkum.Stjórnin skal kosin á aðalfundi og eru allir fullgildir félagsmenn kjörgengir. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal varpað hlutkesti á milli þeirra.

8 gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins innan þeirra marka, sem lögin setja.

9 gr.
Aðalfundur skal haldinn að vori ár hvert og ekki seinna en í maílok.  Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.  Rétt til setu á aðalfundi hafa allir sem eru fullgildir félagar samkvæmt skrám félagsins. 

Aðalfundur skal auglýstur með fjögurra vikna fyrirvara hið minnsta.  Skrifleg tilkynning um framboð til stjórnarstarfa skal hafa borist til stjórnar Físl eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund svo að unnt verði að birta í fundarboði endanlegan lista yfir þá sem gefa kost á sér. 

Fundarboð skal sent út minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.  Með fundarboði skal senda öllum fullgildum félagsmönnum kjörgögn og geta þá þeir sem þess óska sent atkvæðaseðil sinn til skrifstofu Físl í þar til gerðu umslagi eða komið með hann á aðalfundinn og kosið þar.

Öll atkvæði skulu talin á aðalfundi.

Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1.  Skýrsla stjórnar.
2.  Reikningar.
3.  Stjórnarkosning.
4.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.
5.  Lagabreytingar.
6.  Ákvörðun félagsgjalda.
7.  Önnur mál.

Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæða. Allar aðrar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.

10 gr.
Félagsfund skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári eða þegar a.m.k. fimmtungur félaga krefst fundar, enda sé þess jafnframt getið, hvers vegna fundar er krafist. Til félagsfundar skal boða bréflega eða með tölvupósti með minnst 10 daga fyrirvara. Í fundarboði skal getið þeirra mála, sem á að ræða á fundinum. Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

11 gr.
Fundum stýrir formaður félagsins eða sérstaklega kjörinn fundarstjóri. Rannsakað skal í byrjun fundar, hvort fundur sé lögmætur, og lýsa því síðan yfir, hvort svo sé. Atkvæðagreiðsla og önnur meðferð mála á fundi fer eftir því, sem fundarstjóri kveður á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla jafnan fara fram, þegar einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess. Verði atkvæði jöfn, skal hlutkesti látið ráða.

12 gr.
Á fundum félagsins hefur hver félagi eitt atkvæði , enda sé hann skuldlaus við félagið.

13 gr.
Í gjörðabók skal rituð stutt skýrsla um það helsta, er gerðist á félagsfundum, einkum allar fundasamþykktir. Fundarritari og fundarstjóri undirrita fundargerðir. Fundargerð skal vera full sönnun þess, sem fram hefur farið á fundi, og skal hún lesin upp í lok fundar.

14 gr.
Félagar skulu greiða árgjald til félagsins, sem aðalfundur ákveður fyrir eitt ár í senn. Gjalddagi árgjaldsins er 1. maí ár hvert. Greiði félagi ekki árgjaldið til félagsins innan mánaðar frá gjalddaga, er heimilt að innheimta hæstu lögleyfða dráttarvexti á hverjum tíma af skuldinni. Stjórn félagsins getur tekið af félagsskrá þá, sem skulda árgjaldið sitt fyrir eitt ár, enda hafi þeir áður verið bréflega krafðir um greiðslu og þeim kynntar þessar afleiðingar vanskilanna.

15 gr.
Formaður boðar stjórnarfundi eftir því sem þurfa þykir en skylt er honum að boða til stjórnarfundar ef einhver stjórnarmanna krefst þess. Það sem gerist á fundum stjórna skal fært í gerðabók félagsins. Ef ágreiningur verður meðal stjórnarmanna ræður afl atkvæða en verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Skuldbinding félagsins gagnvart öðrum getur einungis gerst með samþykki stjórnar. Formaður skrifar undir fyrir hönd stjórnar með samþykki hennar.

16 gr.
Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsins, jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi, gagnvart stjórnvöldum og öðrum félagssamtökum, og sker úr um þau atriði varðandi störf eða málefni félagsins, sem ekki eru ákveðin í lögum félagsins eða með atkvæðagreiðslu á félagsfundi. Stjórnin skal gefa út félagsskrá og annast innheimtu félagsgjalda. Stjórnin ræður starfsmenn.
Stjórnin velur sér talsmann.

17 gr.
Starfsár félagsins er milli aðalfunda, en reikningsár er almanaksárið.

18 gr.
Lögum félagsins má ekki breyta nema á löglegum aðalfundi. Kynning á tillögu til lagabreytingu skal send út með aðalfundarboði. Lagabreytingin þarf samþykkið 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.

19 gr.
Stjórnin skipar og leysir frá störfum starfsnefndir, eftir því sem henni þykir ástæða til.

20 gr.
Um slit félagsins fer sem um lagabreytingar. Fundur sá, sem samþykkir á lögmætan hátt að slíta félaginu, kveður og á um, til hvaða líknarmála eignum félagsins verður ráðstafað. 

21 gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.