Miðvikudagskvöldið 14. mars kl. 20 er á dagskrá mánaðarlegt stefnumótakaffi í Gerðubergi. Á þessum kvöldum eiga gestir stefnumót við fólk sem hefur áhugaverða sögu að segja, gjarnan af framandi menningarsvæðum. Að þessu sinni mun Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari segja frá ferðalögum sínum um heiminn í máli og myndum. Einar mun ræða um það hversu mikilvægt og gefandi það getur verið að kynnast fjarlægum slóðum, ekki síst til að geta betur skilið og upplifað sinn eigin bakgrunn, sitt heimaland, eins og það er í raun. Einar kemur meðal annars við á Indlandi, í Suður-Ameríku og í Færeyjum en frásögn sína byggir hann á ferðum sínum og umfjöllun um þær í bók sinni, Án vegabréfs – Ferðasögur. Aðgangur er ókeypis, allir velkomnir.

Án vegabréfs – ferðasögur kom út hjá forlaginu Crymogeu seinnihluta árs 2011. Um bókina segir: Flestir staðir heimsins eru á einhvern hátt frásagnarverðir en á sumum stöðum birtist saga mannkyns svo skýrt að hún getur setið fyrir á ljósmynd. Á ferðum sínum undanfarna áratugi hefur Einar Falur Ingólfsson elt uppi þessa staði… Í einstöku samspili stórskemmtilegra frásagna og áhrifamikilla ljósmynda verður til svipmynd af heiminum á okkar dögum. Heimi án vegabréfs. Nánari upplýsingar um bókina má finna hér.

Einar Falur Ingólfsson (f. 1966) er ljósmyndari frá School of Visual Arts í New York en hefur auk þess BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Einar hefur lengi unnið sem blaðamaður á Morgunblaðinu en hefur auk þess sinnt listgrein sinni, ljósmyndun, á margvíslegan hátt auk ritstarfa. Hann hefur haldið fjöldmargar sýningar á verkum sínum, hérlendis og erlendis og skrifað bækur. Af nýlegum verkum má nefna ljósmyndaverkefnið Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwoods sem samanstóð af bók og ljósmyndasýningu. Einnig má nefna að nú stendur yfir sýning Einars SKJÓL í Listasafni ASÍ.