Einar Falur Ingólfsson nam bókmenntafræði við Háskóla Íslands og er með MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Hann hefur á liðnum árum haldið margar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Um árabil var Einar Falur myndstjóri Morgunblaðsins en hann hefur jafnframt starfað sem menningarblaðamaður og fjallað einkum um myndlist og bókmenntir.

Meðal bóka Einars Fals má nefna Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwoods, sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en samnefnd sýning var sett upp í Þjóðminjasafni Íslands árið 2010 og hefur í kjölfarið verið sett upp víða um land. Haustið 2011 sendi hann frá sér bókina Án vegabréfs – Ferðasögur, en auk þess að segja sögur af misfjarlægum stöðum birtast þar á annað hundrað ferðalagamynda ljósmyndarans, þar á meðal af fjallkonunni í Gimli.

Ljósmyndin á plakatinu er af fjallkonunni á Íslendingadeginum, árlegri hátíð Vestur-Íslendinga í Gimli við Manitobavatn í Kanada árið 1996 og situr hún á hátíðarsviði í skrúðgarði þar í bæ, við málverk sem sýna íslenskt landslag. Fjallkona þetta ár var Dee-Dee Westdal. Í Vesturheimi þykir mikill heiður að vera valin til að vera fjallkonan á Íslendingadaginn og fellur sá heiður árlega í skaut konu sem hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir samfélag afkomenda íslensku landnemanna í Kanada og í Bandaríkjunum.

Frekari upplýsingar um Einar Fal og verk hans má finna á www.efi.is