Skjól, sýning Einars Fals Ingólfssonar, opnar í Listasafni ASÍ á laugardaginn kemur, 10. mars, klukkan 15.00. Á sýningunni eru þrjár tengdar ljósmyndaraðir. Í Arinstofu eru Skjól, Griðastaðir í Ásmundarsal og Svörður í Gryfju. Öll verkin eru frá síðustu fjórum árum og þróðuðust sem persónuleg viðbrögð við bankahruni og aðstæðum tengdum því. Íslenskt hugvit og íslensk hönnun þar sem notagildið skiptir höfuðmáli, og griðastaðir þeirra sem landið byggja, eru meðal annars viðfangsefni verkanna. Haustið 2008 var undirstöðunni kippt undan fótum margra; það var tími merktur óvissunni. Þjóðin sagði þá skilið við meinta góðæristíð þar sem tengsl hennar við ræturnar höfðu trosnað. Listamaðurinn spurði sig þá hvernig hann gæti tekist á við ástandið, með sínum miðli, ljósmyndinni, á persónulegan hátt. Afrakstur þess ferlis sést á sýningunni, allt ljósmyndir teknar á stóra blaðfilmu. Svörður er röð verka þar sem rýnt er jörð forfeðranna, Skjól eru í senn táknmynd skjólsins sem þjóðin leitaði haustið örlagaríka 2008, en þau eru líka raunveruleg skjól, reist með notagildi að leiðarljósi. Griðastaðir sýna einmitt það, felustaði, afdrep, vinjar; staðir þar sem maðurinn getur verið einn með sjálfum sér og leitað skjóls. Skjól er fyrsta umfangsmikla ljósmyndaverkefni Einars Fals eftir að hann lauk við Sögustaði – Í fótspor W.G. Collingwoods. Sýning með þeim verkum hefur hlotið umtalsverða athygli eftir að hún opnaði í Þjóðminjasafni Íslands á Listahátíð vorið 2010, og hafa verkin síðan meðal annars verið sýnd í Hofi á Akureyri, Listasafninu á Ísafirði og í Frankfurt Kunstverein í Þýskalandi. Samfend bók höfundar var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

 

10. MARS TIL 1. APRÍL

 

Opnun laugardaginn 10. mars kl.:15:00

 

Listasafn ASÍ
Freyjugötu 41
Reykjavik 101

www.listasafnasi.is