Mannlaus herstöð á Miðnesheiði, framandi amerískt þorp á Íslandi. Bragi Þór Jósefsson myndaði varnarliðssvæðið eftir að bandaríski herinn fór af landi brott árið 2006 eftir 55 ára veru en áður en Íslendingar tóku við svæðinu og gæddu það nýju en öðruvísi lífi.
Nú stendur yfir sýningin Varnarliðið í Ljósmyndasafni Reykjavíkur með myndum Braga en samhliða kom út bókin Iceland Defence Force hjá bókaútgáfunni Crymogeu.
Í gegn um myndir Braga fær áhorfandinn að skyggnast inn í þetta forboðna þorp, þessa litlu sneið af bandarískum raunveruleika í íslensku landslagi. Á sama tíma sýna myndirnar hverfulleika lífsins og næstum hjákátlegar leikmyndirnar sem við mennirnir reisum í kring um okkur.
Í viðtali við DV lýsir Bragi tilkomu verksins þannig: „Ég fór fyrst þarna upp eftir fyrir tímarit en sá strax þegar ég kom á svæðið að þetta væri viðfangsefni sem væri bæði sögulega séð mjög mikilvægt að ljósmynda – sem eins konar skrásetning fyrir sögu Íslands – og svo að þetta gæti væri spennandi myndrænt séð. Ég sá að það var hægt að sameina þetta tvennt.“
Viðtal við Braga hjá DV: http://www.dv.is/menning/2015/1/25/iceland-defense-force/
Ítarlegri upplýsingar um sýninguna en hún stendur til 10. maí: http://www.ljosmyndasafnreykjavikur.is/bragi-thor-josefsson-varnarlidid/
Hér má finna bókverkið: http://www.eymundsson.is/nanar/?productid=4c5aab13-a754-11e4-93ff-00155d691f30