Nýverið var gefin út handbók um samtímalist á Íslandi eftir Jón B.K. Ransu.

Listgildi samtímans:  Handbók um samtímalist á Íslandi er fyrsta bók sinnar tegundar á Íslandi. Hún fjallar um myndlist okkar tíma og er hún skoðuð í ljósi alþjóðlegra kenninga um list. Því er ekki um listsöguleg skrif að ræða heldur er verið að fjalla um listgildið og þá hvernig við metum hluti og gefum þeim merkingu sem list.

Höfundurinn, Jón B. K. Ransu, gengur út frá því að samtímalist sé metin út fá þremur ráðandi þáttum. Þeir eru; hugmyndafræði, markaðsfræði og fagurfræði.

„Verk þurfa á hugmyndafræði að halda til að fá merkingu sem list, markaðsfræðin segir til um verðmæti listaverkanna og stöðu listamanna í samtímalistasögunni, en fagurfræðin lítur að skynjuninni og myndmálinu sem listamaður notar til að miðla listaverkinu til annarra. Saman forma þessir þrír þættir ákveðin viðmið sem við gefum okkur þegar við metum list og er uppistaðan fyrir listgildi samtímans“.

Efni bókarinnar er helgað þessum þremur þáttum og eru þeir skoðaðir í samhengi við nokkur listaverk síðustu ára á Íslandi. Tekið skal fram að í bókinni er ekki verið að velja úrval listamanna eða listaverka, né heldur verið að skilgreina hvað sé góð list eða slæm. Megin markmiðið er að gera grein fyrir því hvernig við mælum listgildi samtímans og þannig skerpa á skilningi okkar á samtímalist.