Screen shot 2015-06-14 at 8.16.49 PM13. júní opnaði sýningin Enginn staður í Hafnarborg. Hún samanstendur af verkum átta listamanna sem allir beina sjónum sínum að íslenskri náttúru. Þau eru Björn Árnason, Claudia Hausfeld, Daniel Reuter, Edda Fransiska Kjarval, Ingvar Högni Ragnarsson, Katrín Elvarsdóttir, Pétur Thomsen og Stuart Richardson og eiga það öll sameiginlegt að nota ljósmyndina sem miðil. Sýningarstjórar eru Áslaug Íris Friðjónsdóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Um sýninguna segir meðal annars:

Á sýningunni Enginn staður er horft til verka listamanna sem líta landið öðum augum og leitast við að fanga fegurðina í þeim augnablikum sem við veitum oft ekki eftirtekt. Þau birta sýn á landið og náttúruna sem mótuð er af viðhorfum 21. aldar þegar ógnir beinast að náttúru landsins og vitund manna um náttúruvernd fer vaxandi. Með greiðara aðgengi almennings að náttúrunni og óbyggðum landsins og aukinni ferðamennsku minnkar framandleiki landsins sem kallar fram nýjar listrænar nálganir. Íslensk náttúra er vissulega stórfengleg en hún er líka eftirtektarverð í öðru samhengi.

Að taka ljósmynd felur í sér ákvörðun. Ákveðið val fer fram í huga listamannsins. Enginn staður hlýtur þar af leiðandi alltaf að vera nákvæmlega “þessi” staður. Þó það sé kannski einmitt vegna þess að hann gæti verið enginn staður.

Sýningin stendur til 23. ágúst, nánari upplýsingar hér: http://hafnarborg.is/exhibition/enginn-stadur/