Í þrjú ár, 2014 – 2016, var danski myndlistarmaðurinn Johannes Larsen (1867-1961) fararstjóri minn á ferð um Ísland. Hann ferðaðist um Ísland í tvö sumur, 1927 og 1930, og dró upp rúmlega 300 teikningar á sögustöðum Íslendingasagna fyrir útgáfu danska forlagsins Gyldendal á Íslendingasögunum. Nær níutíu árum síðar fetaði ég í fótspor Larsen og vann með stórri blaðfilmuvél á mörgum þeim sömu stöðum og hann.
Þegar Larsen kom til Íslands var hann á sextugasta aldursári og einn virtasti listamaður Dana. Frá unga aldri hafði hann einbeitt sér að því að túlka danskt landslag og náttúru á blæbrigðaríkan hátt, með sérstakri áherslu á fugla. Íslandsverkefnið reynst talsvert viðameira en Larsen bjóst upphaflega við og teygðist yfir tvö sumur. Fyrra sumarið, 1927, þurfti hann að snúa fyrr heim til Danmerkur en hann hafði ætlað, þar sem sú harmafregn barst honum til Stykkishólms að eiginkona hans lægi fyrir dauðanum – hún lést áður en hann náði til hafnar. Larsen sneri því aftur þremur árum síðar til að ljúka verkinu, beygður maður eftir fráfall eiginkonunnar. Með í för var sami aðstoðarmaður og fyrra sumarið, Ólafur Túbals myndlistarmaður í Múlakoti í Fljótshlíð (1897−1964). Þeir ferðuðust aftur um Suður- og Vesturland og svo áfram austur eftir Norðurlandi uns leiðangrinum lauk við Mývatn.
Allt síðan 188 teikninga Larsen birtust í Íslendingasagnaútgáfu Gyldendal hafa lesendur sagnanna dáðst að meistaralegum tökum listamannsins á forminu, hvernig hann dregur upp og lýsir landi og stöðum á hlutlægan, blæbrigðaríkan og fágaðan hátt. Í hnökralausum línum og krossskyggingum birtast fjöll, hagar, vötn og ský, það glittir stundum í bæi og stöku fuglar birtast.
Íslensku handritin og sögurnar eru einhverjir mikilvægustu og merkustu fjársjóðir Íslendinga – auk landslagsins og náttúrunnar. Árum saman hef ég notið þess að ferðast um landið meðvitaður um sögustaðina – það var því eðlilegt að þeir yrðu á einhvern hátt viðfangsefni verka minna. Undanfarinn áratug hef ég nálgast íslenskt landslag út frá menningarsögu og ummerkjum um menn og nýtingu þeirra á landinu, allt frá söguöld til okkar tíma – og speglað upplifanir mínar í túlkun erlendu listamannanna sem fóru um á undan mér.
Á árunum 2007 til 2010 vann ég að viðamiklu verkefni út frá úrvali um 300 vatnslitamynda sem breski myndlistamaðurinn og rithöfundurinn W.G. Collingwood (1854 – 1932) málaði á slóðum Íslendingasagnanna sumarið 1897. Ég beitti við verkið 4×5 tommu blaðfilmumyndavél sem bauð upp á ríkulegar myndrænar upplýsingar og hlutlægni í nálgun við viðfangsefnin. Nálgun þeirra Collingwood og Larsen við íslensk landslag og sögustaðina er ólík – og ólík nálgun íslenskra listamanna sem störfuðu á sama tíma. Þeir tveir eiga þó sameiginlegt að báðir sýna sögusvið sagnanna og láta lesendur um að raða persónunum inn á það í huganum.
Teikningar Larsen má líta á sem eitt heildsteypt verk. Vissulega eru þær myndskreytingar við Íslendingasögur en eru um leið eitthvað miklu stærra og víðfeðmara, menningarsögulegur og listrænn fjársjóður skapaður af þroskuðum listamanni með tæra sýn á heim sem hann er að uppgötva. Og þegar ég fór að kynna mér þetta verk Larsen af alvöru þá leið ekki á löngu þar til ég ákvað að gera hann að fararstjóra í þessari ferð þar sem ég upplifði Ísland samtíma míns með hliðsjón af sýn hans og teikningum. Það vatt upp á sig og ferðalagið stóð í þrjú ár með hléum, frá 2014 til 2016, en síðasta sumarið má segja að ég hafi ferðast um og unnið með Larsen í þær sömu tólf vikur sumarsins og hann eyddi í tvígang á Íslandi.
Eins og í öðrum helstu ljósmyndaverkefnum mínum undanfarinn áratug beitti ég einkum 4×5 tommu litfilmu. Meginástæðurnar fyrir því vali eru annarsvegar ríkulegar upplýsingarnar sem stór filman býr yfir, svo ríkulegar að sú stafræna tækni sem stendur til boða nær engan veginn að skila viðlíka hlutlægum upplýsingum, og hins vegar er hægt vinnuferlið sem krefst mikillar íhygli mikilvægt. Með í för voru danskar og íslenskar útgáfur Sagnanna og allrahanda útprent af þeim myndum Larsen sem ég vildi einkum vinna út frá. Þá hélt ég ítarlega dagbók með hugleiðingum, hugmyndavinnu og skissum. Ég notaði stafrænar myndavélar við að gera skissur, bæði stærri vélar og myndavélina í símanum – nokkrar slíkar getur að líta á sýningunni, augnablik fönguð, skyndimyndir sem vinna með heildinni.
Samtalið við teikningar Johannesar Larsen er ákveðin undirstaða í þessu verkefni en ljósmyndaverk mín standa þó jafnframt stök og sjálfstæð. Stundum kýs ég að sýna teikningarnar sem Larsen gerði á stöðunum – og hægt er að velta fyrir sér spurningum um hlutlægni og huglægni, sjónarhorn, nákvæma endurgerð eða túlkun – en í öðrum tilvikum læt ég ljósmyndirnar standa einar. Samtímis því að eiga í samtali við tíma Íslendingasagna og tíma fararstjórans Larsen á Íslandi, þá fjalla ljósmyndirnar fyrst og fremst um samtíma minn – Ísland á 21. öldinni. Þær eru mótaðar af lífssýn minni og vísa í og byggja að mörgu leiti á bakgrunni mínum í bókmenntum og myndlist.
Þrátt fyrir að hann kæmi til Íslands að sinna vandasömu verkefni þá var Larsen jafnframt ferðamaður að upplifa landið, rétt eins og þær hundruðir þúsunda gesta í sívaxandi straumi ferðalanga sem koma nú árlega til landsins og urðu að mikilvægum þætti í verki mínu. Oft tók ég upp puttaferðalanga sem voru komnir til að upplifa land og náttúru. Sumir ferðalanganna höfðu rúman tíma og fengu að slást í för með okkur og skoða sögustaðina. Þar tók ég iðulega portrett af þeim, með sjónarhorn Larsen í huga, og eins ljósmyndaði ég stundum heimamenn.
Hér birtast nokkur endurtekin þemu svo sem stígurinn eða leiðin, hliðið og ferðalangurinn. Meginstefið er þó líklega sjálfur tíminn, tími landsins annarsvegar og hinsvegar okkar mannanna. Og hér eru allrahanda ummerki um sögu, horfin líf og nýtingu á landi og gæðum. Ekkert upphafið, vona ég, heldur bara þetta land mótað af náttúruöflum og sögum, eins og það blasti við okkur Johannesi Larsen á heillandi en krefjandi ferðalögum með nær níutíu ára millibili.
+ + +
Einar Falur Ingólfsson er bókmenntafræðingur að mennt og með MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Einka- og samsýningar með verkum hans hafa verið settar upp í söfnum og sýningarsölum á Íslandi og að víða erlendis, meðal annars í Scandinavia House og Katonah Museum í New York, Johannes Larsen Museet í Danmörku, Ljósmyndasafni Moskvuborgar og Frankfurt Kunstverein. Hann er höfundur nokkurra bóka.
21th of may to 20th of august.
Hafnarborg
Strandgata 34
220 Hafnarfjörður
Iceland